Ferill 521. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1317  —  521. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um fjölda hælisleitenda og dvalartíma þeirra hér á landi.


    Ráðuneytið óskaði eftir upplýsingum frá Útlendingastofnun, stoðdeild embættis ríkislögreglustjóra og utanríkisráðuneytinu vegna fyrirspurnarinnar.

     1.      Hver var fjöldi hælisleitenda og hversu margir fengu hæli hér á landi á árunum 2012– 2017? Svar óskast sundurliðað eftir árum.
    Töflurnar hér á eftir sýna annars vegar fjölda umsækjenda um alþjóðlega vernd á árunum 2012–2017 (tafla 1) og hins vegar fjölda veitinga á alþjóðlegri vernd, viðbótarvernd og dvalarleyfum af mannúðarástæðum sömu ár (tafla 2). Vakin er athygli á að veitingar á hverju ári geta verið vegna umsókna sem lagðar voru fram á árunum á undan.

Tafla 1. Fjöldi umsókna um alþjóðlega vernd á árunum 2012–2017.

Fjöldi umsókna um vernd

2012

118

2013

172

2014

176

2015

354

2016

1133

2017

1096


Tafla 2. Fjöldi veitinga á alþjóðlegri vernd, viðbótarvernd og mannúðarleyfi á árunum 2012–2017.

Fjöldi veitinga

Flóttamannastaða / Alþjóðleg vernd Viðbótarvernd Mannúðarleyfi
2012

3

2

0

2013

8

5

3

2014

28

9

15

2015

45

21

21

2016

59

40

22

2017

88

36

54


     2.      Hver var meðaldvalartími þeirra hælisleitenda hérlendis sem fengu synjun erindis á sama tíma? Hver var lengsti dvalartíminn og hvernig var dreifing hans?
    Til grundvallar útreikningi á dvalartíma liggur dagsetning umsóknar og dagsetning flutnings úr landi. 1

Tafla 3. Meðaldvalartími og lengsti dvalartími umsækjenda um alþjóðlega vernd sem var synjað um efnislega meðferð eða synjað um vernd, viðbótarvernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum á árunum 2012–2017.

Meðaldvalartími

Lengsti dvalartími

2012

353

792

2013

204

990

2014

355

1432

2015

316

1151

2016

177

843

2017

166

531


Tafla 4. Dreifing dvalartíma umsækjenda um alþjóðlega vernd sem var synjað um efnislega meðferð eða synjað um vernd, viðbótarvernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum á árunum 2012–2017, eftir fjölda mánaða.

Fjöldi mánaða

2012

2013

2014

2015

2016

2017

0–3

1

12

3

18

163

99

3–6

4

48

7

10

133

128

6–9

2

32

8

35

127

79

9–12

4

5

4

19

61

33

12–15

7

4

3

10

15

11

15–18

3

5

4

8

7

9

18–21

5

1

5

21–24

1

1

24–27

1

2

27–30

2

3

2

>30

1

1

6



     3.      Hvaða þættir hafa helst áhrif á dvalartíma hælisleitenda? Hvað hafa stjórnvöld gert til þess að stytta dvalartímann, hver er árangur þeirra aðgerða og hvaða aðgerðir eru fyrirhugaðar?
    
Spurningin er í fjórum liðum og er svarinu við henni skipt niður samkvæmt því.

Hvaða þættir hafa helst áhrif á dvalartíma hælisleitenda?
    Dvalartími umsækjenda um alþjóðlega vernd er sá tími sem það tekur stjórnvöld að afgreiða umsókn, ýmist að viðbættum þeim tíma sem það tekur að framkvæma synjun með sjálfviljugri heimför eða flutningi umsækjanda úr landi eða þeim tíma sem það tekur einstaklinga sem er veitt vernd, viðbótarvernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum að útvega sér húsnæði.
    Eðli mála og málsástæður umsækjenda um alþjóðlega vernd eru mjög mismunandi, auk þess sem munur er á þeirri meðferð sem mál fá hjá stjórnvöldum. Það eru þessir þættir varðandi málsmeðferðina sem einna mest áhrif hafa á lengd dvalar hvers og eins umsækjanda, þ.e. hvort um sé að ræða bersýnilega tilhæfulausa umsókn einstaklings frá öruggu upprunaríki, hvort umsókn er afgreidd án efnislegrar niðurstöðu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar eða hvort umsókn er tekin til efnislegrar meðferðar. Þá hefur það einnig áhrif á lengd dvalartímans hvort umsækjandi uni niðurstöðu Útlendingastofnunar í máli sínu eða kæri hana til æðra stjórnvalds eða óski eftir frestun réttaráhrifa á niðurstöðu æðra stjórnvalds. Þá skiptir það máli varðandi lengd dvalartímans hvort umsækjandi er með skilríki meðferðis og hægt sé að auðkenna hann. Málum þar sem umsækjendur um alþjóðlega vernd eru án skilríkja hefur fjölgað en slíkt kallar á lengri afgreiðslutíma. Það hefur ekki síst áhrif á þann tíma sem það tekur yfirvöld að framkvæma flutning til heimalands en langan tíma getur tekið að útvega ferðaskilríki og er það háð samvinnu við heimaríki viðkomandi. Auðkenningarvinna og öflun ferðaskilríkja frá heimaríki, sem veita heimild til landgöngu þar, geta í sumum tilvikum tekið marga mánuði. Í samstarfi við viðtökuríki skipta máli atriði eins og endurviðtökusamningar og kröfur varðandi undirbúning, t.d. tilkynningarfresti. Í sumum tilvikum, varðandi endursendingar til ríkja samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni, er flugvöllum lokað á ákveðnum dögum vegna móttöku á fólki sem verið er að endursenda. Eins getur Ísland ekki endursent umsækjendur um vernd til ríkja sem ekki taka við eigin ríkisborgurum sem sendir eru til baka gegn vilja þeirra.
    Fjöldi umsókna og samsetning umsækjenda hefur einnig mikil áhrif á hversu langan tíma málsmeðferðin tekur. Til að tryggja skjóta og skilvirka afgreiðslu umsókna skiptir því mestu máli að allir aðilar kerfisins, Útlendingastofnun, kærunefnd útlendingamála, talsmannakerfið og stoðdeild ríkislögreglustjóra, hafi nægar bjargir til að sinna þeim málafjölda og þeirri samsetningu mála sem þeir hafa til vinnslu hverju sinni. Hafi kerfið fleiri eða þyngri mál til vinnslu en það ræður vel við verða tafir á afgreiðslunni sem hefur í för með sér biðtíma fyrir umsóknir. Í þessu tilliti er mikilvægt að líta á kerfið sem heild því tafir hjá einum aðila geta myndað flöskuháls sem hefur áhrif á allt ferlið.

Hvað hafa stjórnvöld gert til þess að stytta dvalartímann?
    Á undanförnum árum hefur stærstur hluti umsækjenda um alþjóðlega vernd hér á landi komið frá ríkjum á lista yfir örugg upprunaríki og hafa stjórnvöld því lagt ríka áherslu á aðgerðir til að draga úr og sinna hratt umsóknum frá þessum ríkjum og stytta dvöl þessara umsækjenda með skilvirkri málsmeðferð, sem dæmi má nefna:
          Forgangsmeðferð fyrir bersýnilega tilhæfulausar umsóknir ríkisborgara frá öruggum upprunaríkjum var komið á hjá Útlendingastofnun í upphafi árs 2016.
          Albaníu, Georgíu, Kósóvó, Makedóníu, Serbíu, Svartfjallalandi og stærstum hluta Úkraínu hefur verið bætt á lista yfir örugg upprunaríki.
          Með breytingu á lögum um útlendinga, nr. 80/2016, sem tóku gildi 1. janúar 2017, var kveðið á um að kæra frestaði ekki réttaráhrifum ákvörðunar Útlendingastofnunar í tilviki bersýnilega tilhæfulausra umsókna frá ríkisborgurum öruggra upprunaríkja (lög nr. 124/2016 og 17/2017).
          Með breytingu á reglugerð um útlendinga, nr. 540/2017, sem tók gildi 30. ágúst 2017, var Útlendingastofnun veitt heimild til að taka ákvarðanir í forgangsmálum án skriflegs rökstuðnings strax að fyrsta viðtali loknu. Þá veitti reglugerðarbreytingin Útlendingastofnun heimild til að fella niður þjónustu við þá sem koma frá öruggum upprunaríkjum og við þá sem teljast vera með bersýnilega tilhæfulausa umsókn um leið og ákvörðun liggur fyrir. Auk þess er framfærslufé ekki greitt eftir að umsókn er dregin til baka eða ákvörðun liggur fyrir. Með reglugerðarbreytingunni var einnig áréttuð sú stefna stjórnvalda að brottvísa þeim einstaklingum sem leggja fram tilhæfulausar umsóknir um alþjóðlega vernd hér á landi en brottvísun felur í sér endurkomubann á Schengen-svæðið í ákveðinn tíma.
    Aðrar aðgerðir til að tryggja skjóta og skilvirka afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd:
          Umbótaverkefni Útlendingastofnunar í samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (2013–2016).
          Reglulegir samráðsfundir (nú mánaðarlegir) á vegum dómsmálaráðuneytisins með þeim aðilum sem sinna málsmeðferð á umsóknum um alþjóðlega vernd. Fundina sækja, auk fulltrúa dómsmálaráðuneytisins, fulltrúar Útlendingastofnunar, kærunefndar útlendingamála, stoðdeildar ríkislögreglustjóra, lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, lögreglunnar á Suðurnesjum og Rauða krossins. Einnig hefur fulltrúi utanríkisráðuneytisins sótt fundina eftir þörfum.
          Stofnun stoðdeildar ríkislögreglustjóra, sem annast framkvæmdir á ákvörðunum Útlendingastofnunar.
          Sameiginleg starfsstöð verndarsviðs Útlendingastofnunar, lögreglunnar á Suðurnesjum, lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og stoðdeildar ríkislögreglustjóra var tekin í notkun í Bæjarhrauni í Hafnarfirði árið 2016 og hefur stytt boðleiðir og bætt upplýsingaflæði milli aðila.
          Samningur um talsmannaþjónustu við Rauða krossinn gerður til þriggja ára í kjölfar forauglýsingar á Evrópska efnahagssvæðinu samkvæmt VIII. kafla laga nr. 120/2016, um opinber innkaup.
          Samningur við alþjóðlegu fólksflutningastofnunina (IOM) um aðstoð við sjálfviljuga heimför umsækjenda um vernd tók gildi í ágúst 2016 og var nýlega framlengdur til 31. janúar 2020.
          Síðan 2013 hafa verið átaksverkefni þar sem ráðnir hafa verið starfsmenn tímabundið til Útlendingastofnunar til að mæta örri fjölgun umsækjenda um alþjóðlega vernd, síðast tímabundin fjölgun stöðugilda hjá Útlendingastofnun um tíu á grundvelli ákvörðunar ríkisstjórnarinnar frá miðju síðasta ári.
          Ákvörðun um fjölgun stöðugilda lögreglumanna hjá stoðdeild ríkislögreglustjóra úr sjö í tíu í mars 2018, á grundvelli samnings Útlendingastofnunar og ríkislögreglustjóra fyrir árið 2018. Þessar stöður hafa ekki verið mannaðar.
          Dómsmálaráðuneytið, ríkislögreglustjóri, Útlendingastofnun og utanríkisráðuneytið hafa átt í samstarfi varðandi flutning á umsækjendum um alþjóðlega vernd frá Albaníu, Makedóníu og Georgíu til heimalanda sinna. Aðkoma utanríkisráðuneytisins hefur verið fólgin í samskiptum við stjórnvöld í þessum ríkjum til að tryggja að þau taki á móti einstaklingum sem synjað hefur verið um alþjóðlega vernd á Íslandi á grundvelli gildandi reglna, ásamt því að afla yfirflugs- og lendingarleyfa frá viðeigandi stjórnvöldum. Vegna þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu þarf Ísland að gera sambærilega samninga og ESB hefur gert við þriðju ríki 2 um vegabréfsáritanafrelsi, um útgáfu vegabréfsáritana og um endurviðtöku ríkisborgara þeirra sem koma ólöglega hingað til lands. Utanríkisráðuneytið hefur í samstarfi við dómsmálaráðuneytið unnið að gerð endurviðtökusamninga. Stendur slík samningavinna nú yfir við nokkur ríki, t.d. Tyrkland og Makedóníu.

Hver er árangur þeirra aðgerða?
    Hér vísast til svars við 2. tölul. fyrirspurnarinnar um lengd dvalartímans. Þar má sjá að meðaldvalartími umsækjenda sem var synjað um efnislega meðferð eða synjað um alþjóðlega vernd styttist um tæpan helming (44%) milli áranna 2015 og 2016. Á sama tíma fjölgaði umsóknum um alþjóðlega vernd hins vegar um meira en 300%, úr 354 í 1133. Langflestir umsækjendur á árinu 2016 komu á síðustu mánuðum ársins og umsækjendur árið 2017 voru lítið færri eða 1096. Þrátt fyrir þetta styttist meðaldvalartíminn áfram milli áranna 2016 og 2017.
    Afgreiðslutími bersýnilega tilhæfulausra umsókna hjá Útlendingastofnun hefur styst úr 69 dögum að meðaltali árið 2017 í fjóra daga að meðaltali það sem af er árinu 2018. Þá hefur hlutfall bersýnilega tilhæfulausra umsókna umsækjenda frá öruggum upprunaríkjum lækkað úr 52% árið 2017 í 26% á fyrstu fjórum mánuðum ársins 2018. Munar þar mestu um fækkun umsókna ríkisborgara Albaníu og Georgíu.
    Líkt og sjá má á mynd 1 er líklegt að rekja megi fækkun umsókna frá öruggum upprunaríkjum að miklu leyti til aðgerða stjórnvalda.

Mynd 1. Breytingar á fjölda umsókna frá ríkjum sem eru á lista yfir örugg upprunaríki annars vegar og öðrum ríkjum hins vegar.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hvaða aðgerðir eru fyrirhugaðar?

    Áfram verður unnið að því að bæta móttöku- og málsmeðferðarkerfið. Mikilvægt er að tryggja skilvirkni og hafa í huga að móttaka og málsmeðferð umsækjenda um alþjóðlega vernd er ekki verkefni sem verður leyst með átaksaðgerðum heldur er hér um að ræða viðfangsefni sem er komið til að vera í öllum ríkjum hins vestræna heims.
    Reglur og skipulag móttöku- og búsetuúrræða fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd eru stöðugt í endurskoðun og ávallt með það að markmiði að skilvirkni verði aukin og skýrt hvaða þjónusta er veitt og með hvaða hætti.
    Sem dæmi um verkefni, sem eru framundan, er setning reglugerðar um VIS-upplýsingakerfið, 3 sbr. 20. gr. laga um útlendinga, sem er sameiginlegur gagnagrunnur um vegabréfsáritanir. Útlendingastofnun og lögreglu verður t.d. gert mögulegt að leita í upplýsingakerfinu eftir fingraförum. Slík uppfletting getur leitt til þess að auðkenni einstaklings finnist og getur jafnframt verið til þess fallin að skera úr um það hvort fara eigi með málið á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Líkt og kemur fram hér að framan eru ákveðin ríki sem Ísland hefur ekki tök á að endursenda borgara þriðja ríkis til þrátt fyrir að umsókn hafi verið synjað og því getur skipt sköpum að fyrir liggi uppruni umsækjanda og í hvaða farveg umsóknin er sett. Í Noregi hefur þessi notkun á VIS-gagnagrunninum skilað umtalsverðum árangri.
    Unnið hefur verið að bættri skráningu upplýsinga en þar eru mörg tækifæri til úrbóta. Gera þarf þarfagreiningu varðandi upplýsingakerfi og stuðla að því að upplýsingakerfi þeirra aðila sem koma að málsmeðferð og framkvæmd, sem eru Útlendingastofnun, kærunefnd útlendingamála og lögregla, verði samræmd og sameinuð. Með því verður hægt að gera samskipti skilvirkari og tryggja að ekki verði tafir á afgreiðslu mála þegar þau þurfa að færast á milli aðila.
    Í febrúar og mars sl. komu til landsins 56 erlendir sérfræðingar í sex hópum til þess að taka út þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu. Schengen-úttektir eru tæki Evrópusambandsins til að fylgjast með því hvernig reglum Schengen-samstarfsins er framfylgt í samstarfsríkjunum. Úttektirnar eiga m.a. að tryggja skilvirka, samræmda og gagnsæja beitingu Schengen-reglnanna og gagnkvæmt traust ríkjanna. Í framangreindum úttektum voru sex þættir teknir út og varðaði einn þeirra framkvæmd við endursendingar þriðja ríkis borgara. Athugasemdir voru gerðar við 17 atriði sem Ísland þarf að lagfæra, ýmist með breyttu verklagi, laga- og/eða reglugerðarsetningu. Framkvæmd endurkomubanns þótti til að mynda ekki fullnægjandi og talið var að flutningi einstaklinga, sem hafa fengið synjun um vernd út fyrir ytri landamæri Schengen-svæðisins, væri ábótavant.
    Málsmeðferðarreglur í málum um alþjóðlega vernd eru í endurskoðun, einkum þær reglur sem lúta að forgangsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd. Framangreint er liður í að bregðast við úrskurðum kærunefndar útlendingamála vegna þeirra mála sem sett hafa verið í forgangsmeðferð á grundvelli ákvæða um sérstaka málsmeðferð í reglugerð um útlendinga. Mikilvægt er að styrkja lagastoð fyrir forgangsmeðferð tilhæfulausra umsókna frá öruggum upprunaríkjum og tryggja að beiting brottvísunar og endurkomubanns sé í samræmi við ákvæði tilskipunar ESB nr.115/2008 um endursendingar einstaklinga í ólögmætri dvöl sem Ísland er skuldbundið af.

     4.      Hver er fjöldi og meðaldvalartími hælisleitenda sem snúið hafa aftur eftir að hafa verið synjað um vernd og fengið lögreglufylgd úr landi á árunum 2012–2017? Hver var lengsti dvalartíminn og hvernig var dreifing hans? Hvað hafa stjórnvöld gert til þess að fyrirbyggja slíkar endurkomur og hvaða aðgerðir eru fyrirhugaðar?
    Spurningin er í fjórum liðum. Svarinu við henni er skipt niður í þrennt, þannig að í fyrsta lið svarsins er fyrstu tveimur hlutum spurningarinnar svarað saman og síðan þeim tveimur sem eftir eru í aðskildum svörum.

Hver er fjöldi og meðaldvalartími hælisleitenda sem snúið hafa aftur eftir að hafa verið synjað um vernd og fengið lögreglufylgd úr landi á árunum 2012–2017? Hver var lengsti dvalartíminn og hvernig var dreifing hans?

Tafla 5. Fjöldi umsækjenda um alþjóðlega vernd sem sótti um öðru sinni á árunum 2016 til 2017, eftir að hafa verið synjað um efnislega meðferð eða synjað um vernd í efnismeðferð og fengið lögreglufylgd úr landi, meðaldvalartími og lengsti dvalartími. 4

Fjöldi umsækjenda öðru sinni Meðaldvalartími Lengsti dvalartími
2016

9

102

280

2017

7

177

415


    Gengið er út frá því í svarinu að spurt sé um einstaklinga sem fylgt hefur verið úr landi af lögreglu eftir að hafa verið synjað um efnislega meðferð umsóknar um alþjóðlega vernd eða synjað um vernd í efnislegri meðferð, sem komið hafa aftur til landsins og sótt um vernd á ný. Í töflu 5 eru annars vegar upplýsingar um meðaldvalartíma og hins vegar um lengsta dvalartíma.
    Eins og sjá má eru þessi tilvik fá. Lögð hefur verið áhersla á að afgreiða mál fljótt þegar um er að ræða endurtekna umsókn um vernd þar sem upplýsingar um málið liggja fyrir frá fyrri málsmeðferð þó svo að ný umsókn sé alltaf skoðuð sérstaklega og rannsakað hvort nýjar upplýsingar eða gögn liggi fyrir í málinu. Tekið skal fram að þrír af sjö einstaklingum sem sóttu um öðru sinni árið 2017 eru enn á landinu og því liggur ekki fyrir hver endanleg lengd dvalartíma þeirra verður.

Tafla 6. Dreifing dvalartíma umsækjenda um alþjóðlega vernd sem sóttu um öðru sinni á árunum 2012 til 2017, eftir að hafa verið synjað um efnislega meðferð eða synjað um vernd í efnismeðferð og fengið lögreglufylgd úr landi, eftir fjölda mánaða.

Fjöldi mánaða

2016

2017

0–3

6

2

3–6

1

2

6–9

1

2

9–12

1

12–15

1


Hvað hafa stjórnvöld gert til þess að fyrirbyggja slíkar endurkomur?
    Samkvæmt alþjóðlegum lögum og samningum er Ísland skuldbundið til að taka á móti einstaklingum sem sækja um alþjóðlega vernd og fjalla um mál þeirra og skiptir þá ekki máli þó sótt hafi verið um áður. Endurkomur eru því hluti af því kerfi sem rekið er.
    Einstaklingar sem fylgt hefur verið til heimalands hafa oft fengið tímabundið endurkomubann inn á Schengen-svæðið að lágmarki í tvö ár. Endurkomubann ber í slíkum tilvikum að skrá í SIS (Schengen Information System) sem er sameiginlegur gagnagrunnur Schengen-ríkjanna. Hér á landi hefur ríkislögreglustjóri umsjón með SIS-gagnagrunninum. Í þeim tilvikum eru einstaklingar stöðvaðir á ytri landamærum Schengen-svæðisins. Í mörgum tilvikum fer fram greining á farþegalistum en hins vegar veita ekki öll flugfélög aðgang að sínum farþegaupplýsingum. Embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum annast þessar greiningar. Greiningar á farþegaupplýsingum takmarkast af því að nöfn séu alltaf skrifuð eins.
    Þegar einstaklingar eru hins vegar fluttir til annars Schengen-lands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar er ekkert sem kemur í veg fyrir að viðkomandi komi aftur til landsins.
    Í þessu samhengi þykir einnig rétt að benda á þá þætti sem helst hafa áhrif á dvalartíma umsækjenda um vernd og raktir eru í svari við 3. tölul. fyrirspurnarinnar. Þar eru rakin atriði sem íslensk stjórnvöld hafa í raun enga stjórn á.

Hvaða aðgerðir eru fyrirhugaðar?
    Svo sem tölur um endurkomur bera með sér, sbr. það sem áður segir, eru endurkomur ekki alvarlegt vandamál hér á landi. Miklu skiptir þó að greina fljótt breytingar sem verða á mynstri á komum til landsins. Unnið er að samningi milli annars vegar Útlendingastofnunar og hins vegar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og lögreglunnar á Suðurnesjum um fjölgun stöðugilda lögreglumanna sem sinna móttöku og greiningu á upplýsingum um umsækjendur um alþjóðlega vernd úr þremur í fimm. Með því verður mögulegt að setja aukna vinnu í greiningu og eftirlit með komum umsækjenda um alþjóðlega vernd til landsins.

1    Á árunum 2012–2015 var dagsetning flutnings úr landi ekki í öllum tilvikum skráð í tölfræðigrunn varðandi umsóknir um alþjóðlega vernd, útreikningar ná eðli máls samkvæmt ekki til þeirra.

2    Ríki utan Schengen-samstarfsins.
3    Visa Information System.
4    Á árunum 2012–2015 var dagsetning flutnings úr landi ekki í öllum tilvikum skráð í tölfræðigrunn varðandi umsóknir um alþjóðlega vernd, upplýsingarnar ná eðli máls samkvæmt ekki til þeirra.